#Kvennastarf
_____
Um
Átakið #kvennastarf vísar til mýtu sem flestir landsmenn kannast við, mýtunnar um að eðlilegt sé að starfsgreinar flokkist í kvennastörf og karlastörf.
Velt er upp spurningunni; hvaða störf eru kvennastörf?
Svarið er að kynferði á ekki að þurfa hafa áhrif á námsval eða starfsvettvang. Hefðbundin verkaskipting kynjanna er orðin úrelt og á ekki lengur við í nútímasamfélagi.
Öll störf eru kvennastörf. Konur eiga að geta starfað við það sem þeim sýnist og það sama gildir um karlmenn
Tilgangur
Erfitt getur verið að koma inn á vinnumarkað og tilheyra minnihlutahópi. Slíkt getur haft fælandi áhrif á að starfa við það sem viðkomandi hefur áhuga á.
#kvennastarf vill vekja athygli á að konur eru starfandi í ýmsum karllægum starfsgreinum í dag. Þær eru mismargar og í sumum greinum örfáar en athyglinni verður beint að því að þær eru samt þarna.
#kvennastarf veitir þessum konum tækifæri til að deila reynslu sinni. Kvenkyns fyrirmyndir í námi og starfi eru gerðar sýnilegri ungu kynslóðinni til að sanna að allir geta starfað við það sem þá langar til.
Markmið
Iðn- og verkgreinar eru enn í dag karllægustu starfsgreinar atvinnulífsins og þar ríkir mikil vöntun á fagmenntuðu fólki. Ef rúmlega helmingur þjóðarinnar, konur, útilokar verk-, tækni- og iðngreinar vegna úreltra staðalímynda þá er það kannski ekki að undra.
Iðn- og verkmenntaskólar á Íslandi stefna á að fjölga fagmenntuðu fólki og markmið þeirra er að 20% grunnskólanema velji starfsmenntun árið 2025 og 30% árið 2030.
Með #kvennastarf vilja þessir skólar vekja athygli á og jafna þennan kynjahalla.
Augljóst er að ef fleiri stelpur sjá tækifæri í starfsmenntun verður auðveldara að fjölga nemendum í iðn- og verkmenntagreinum og fleira fagmenntað fólk verður til fyrir íslenskt atvinnulíf.
Tölfræði
___
Heildarfjöldi karlmanna á Íslandi sem lokið hafa sveinsprófi í löggildri iðngrein eru 32.641.
Heildarfjöldi kvenna er 5.151.
%
Karlar
%
Konur
Tölfræði um heildarfjölda þeirra sem lokið hafa sveinsprófi á Íslandi var síðast uppfærð árið 2017.
Upplýsingar um nýjustu tölur verða settar inn á næstu dögum.